Þann 12. júní 2025 fór fram fyrirlestur á vegum rannsóknarstofnunnar lífeyrismála þar sem Klaus F. Zimmerman, prófessor emeritus við háskólann í Bonn, flutti erindi um minnkandi frjósemi.
Erindið hófst á því að Zimmerman beindi sjónum að Íslandi í samhengi almennrar lækkunnar á fæðingartíðni á heimsvísu. Í OECD löndum er frjósemi komin langt undir 2,1 barn á hverja konu, en sú tala er notuð sem viðmið fyrir það sem nauðsynlegt er að viðhalda mannfjölda. Þrátt fyrir að nýlegar rannsóknir bendi til þess að frjósemi í þróuðum ríkjum fylgi nokkurskonar U-ferli, þ.e. að frjósemi lækkar um hríð en hækkar svo að einhverju leyti aftur, þá leggur Zimmerman áherslu á að sönnunargögnin fyrir U-ferlinum séu ekki sérlega sannfærandi að svo stöddu.
Einnig snerti Zimmerman á frjósemi í hagfræðilegu samhengi, með viðkomu í kenningum Malthus, Brentano og Beckers ásamt líkönum sem taka með í reikninginn að fjöldi barna hefur áhrif á getu foreldra til að fjárfesta í hverju barni
Frjósemi á Íslandi hefur löngum verið há í samanburði við nágrannalöndin. Það var ekki fyrr en 2012 sem frjósemi fór undir 2,1 viðmiðið. Að því sögðu þá hefur þróunin verið hröð síðustu ár, en frjósemi hefur aldrei verið lægri á Íslandi en nú, þ.e. 1,56 barn á hverja konu. Þessi þróun á sér stað þrátt fyrir að á Íslandi er rausnarlegt félagslegt kerfi þegar kemur að uppeldi barna, t.a.m. langt fæðingarorlof sem gerir ráð fyrir þátttöku feðra ásamt niðurgreiddum leikskólum og dagforeldrum. Það sem gæti útskýrt lágu fæðingartíðnina þrátt fyrir þetta rausnarlega kerfi gæti verið hár aldur við fyrsta barn, hár húsnæðiskostnaður, þrýstingur frá vinnumarkaði, breytt samfélagsviðhorf og há innflytjendatíðni sem dugar tímabundið að viðhalda mannfjölda.
Fyrirlestrinum lauk með hugleiðingum um hversu miklu aðgerðir stjórnvalda til að auka frjósemi geti raunverulega skilað. Að mati Zimmermans er ljóst að engin ein aðgerð nær að snúa þróuninni við. Þó gæti fjöldi aðgerða sem vega á sömu sveif skilað árangi, þar mætti nefna ódýra umönnun barna, jafnt fæðingarorlof mæðra og feðra, húsnæðisstuðning, sveigjanlegan vinnutíma og almennt kynjajafnrétti.
Þegar Zimmerman lauk máli sínu steig Vilmundur Torfason á stokk og sagði frá íslenskri rannsókn sem hann hefur unnið undir handleiðslu Gylfa Zoega og byggir m.a. á gögnum úr skattframtölum allra Íslendinga. Rannsóknin sýndi fram á hvaða ytri þáttum frjósemi er tengd, þar stóð helst aldur, tekjur, hjúskaparstaða og húsnæðiseign. Þeir þættir sem hafa ekki áhrif á frjósemi eru tekjur foreldra (amma og afi barnsins) og hvort einstaklinga séu innfæddir eða innflytjendur. Vilmundur nefndi einnig þætti sem er ekki að finna í skattagögnunum sem gætu spilað rullu, þar á meðal eru menningarlegir þættir og óvissa um framtíðina en tækniframfarir, t.a.m samfélagsmiðlar, gætu mögulega magnað áhrif þessara þátta.
Að fyrirlestrum loknum voru líflegar umræður í sal. Þar stóð hæst umræður um það hvort lág frjósemi sé vandamál yfir höfuð.
Hér má nálgast glærur Zimmermans: 250612 Fertility Decline Iceland Seminar
Hér má nálgast glærur Vilmundar: PRICE_25_gz_vt_11_06_new
Útdrátt og fyrri tilkynningu má lesa hér að neðan:
Klaus F. Zimmermann (Free University Berlin & GLO) mun halda fyrirlestur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins þann 12. júní frá 12 til 13.30:
Klaus F. Zimmermann
The Economics of Fertility Decline
Frjósemi hefur farið minnkandi í mörgum löndum og er nú áhyggjuefni fremur en vaxandi fólksfjöldi í heiminum sem áður þótti vera vandamál. Því hefur verið spáð að um næstu aldamót muni fólki fara fækkandi í flestum löndum heimsins. Hver er skýringin á þessu? Hagfræðingar greina venjulega orsakir minnkandi frjósemi innan ramma svokallaðs „lýðfræðilegs umbreytingarlíkans“, líkans Gary Becker um magn og gæði, og tilgátu Dick Easterlin um hugmyndir um fjölskyldustærð sem þróast á æskuárum. Eru þessar tilgátur úreltar og getum við vænst vaxandi fólksfjölda í framtíðinni? Geta stjórnvöld hjálpað við að ná slíkum markmiðum? Það eru fáar vísbendingar um að slíkt sé mögulegt. Í fyrirlestrinum verða leidd rök fyrir því að við getum einungis vænst sveiflu í frjósemi yfir tíma. Þrátt fyrir að frjósemi hafi minnkað verulega á síðasta áratug á Íslandi, er þetta enn aðallega rakið til þess að konur eignist fyrsta barn síðar á ævinni. Hverjir eru valkostir Íslands í ljósi gagna frá öðrum löndum?
Eftir að Klaus hefur lokið fyrirlestri sínum mun Vilmundur Torfason, BS nemi í hagfræði, segja frá niðurstöðum rannsóknar á frjósemi á Íslandi.
Klaus Felix Zimmermann er prófessor emeritus við háskólann í Bonn. Hann gegnir einnig stöðu við Maastricht háskóla, Frjálsa háskólann í Berlin og Renmin háskóla í Kína. Hann gegnir stöðu forseta Global Labor Organization. Rannsóknir hans eru á sviði fólksfjölda, vinnumarkaðs, þróunar og búferlaflutninga. Klaus Zimmermann er einn helsti sérfræðingur um hagfræði búferlaflutninga í heiminum.
 
				 
								 
								 
															

