Vinnustofa í rannsóknum á neyslu og sparnaði yfir ævina, 25-26 ágúst 2023

Í aðdraganda stofnunar PRICE var haldin vinnustofa í Héraðsskólanum á Laugarvatni í lok ágúst.  Þar voru kynntar ýmsar rannsóknir á sparnaðarhegðun einstaklinga.

Arnaldur S. Stefánsson kynnti rannsókn á áhrifum skuldaleiðréttingarinnar árið 2015 á sparnað þeirra sem nutu góðs af henni.  Sigurður P. Ólafsson fjallaði um áhrif fjármálahrunsins árið 2008 á sparnaðarvilja þjóðarinnar. Andri Scheving lýsti niðurstöðum rannsókna sinna á sparnaði eftirlaunaþega. Erla Björk Sigurðardóttir fjallaði um það hvort opinberir starfsmenn hefðu lagt í meiri skuldsetningu en starfsfólk á almenna markaðinum á meðan þeir höfðu ríkari lífeyrisréttindi. Svend Hougaard Jensen fjallaði um kosti þess að heimili gætu losað um lífeyriseignir sínar, fengið laust fé þegar þjóðhagsleg áföll verða í ljósi aðstæðna í Danmörku þar sem húsnæðisskuldir eru miklar og eignir einkum bundar í fasteignum og lífeyrisréttindum.

Arnaldur Sölvi Kristjánsson sagði frá rannsóknum sínum með Emil Dagssyni um færanleika á milli kynslóða þegar kemur að tekjum, hvort tekjur foreldra skipti máli fyrir tekju uppkominna barna.

Nokkrir fyrirlesarar fjölluðum um málefni seðlabanka. Þorsteinn S. Sveinsson kynnti mælingar sínar á meðlimum peningastefnunefndar Seðlabankans, hvort þeir væru „dúfur“ eða „haukar“, vildu lága vexti eða háa. Ásgerður Pétursdóttir fjallaði um útgáfu seðlabanka á rafeyri og Yunus Aksoy fjallaði um ákvarðanir seðlabankastjóra Bandaríkjanna.

Carolyn St Aubyn fjallaði um mögulegar skýringar á því af hverju fólk kýs að eiga peninga á bankabók á lágum vöxtum en jafnframt skulda á greiðslukortum á háum vöxtum. Slíkt hegðunarmynstur er áberandi í Bretlandi.

Að lokum voru tveir fyrirlestrar um áhugaverð en ískyld efni. Tinna Ásgeirsdóttir fjallaði um hvaða áhrif fötluð börn hefðu á möguleika einstæðra foreldra á að finna sér nýjan maka. Ásthildur M. Jóhannsdóttir fjallaði að lokum um áhrif COVID-19 farsóttarinnar á frammistöðu háskólanema og mikilvægi tengslanets sem myndaðist í framhaldsskólum.