Rannsóknir í vinnslu

Rannsókn á áhrifum hækkaðs framlags vinnuveitenda í lífeyrissjóð á sparnaðarhegðun fólks (sjá nánar)

Höfundar: Svend Hougaard Jensen, Sigurður Páll Ólafsson, Arnaldur Smári Stefánsson, Þorsteinn Sigurður Sveinsson og Gylfi Zoega

Útdráttur: Árin 2016-18 hækkaði framlag margra atvinnurekenda á almennum vinnumarkaði til skyldulífeyrissparnaðar á sama tíma og framlag til opinberra starfsmanna hélst óbreytt. Hér er því um náttúrulega tilraun að ræða. Farið er í saumana á því hvaða áhrif þessi breyting í skyldulífeyrissparnaði hafði á annan sparnað einstaklinga. Rannsóknin byggir á gögnum fengnum úr skattaskýrslum allra landsmanna. Niðurstöður eru þær að annar sparnaður dróst ekki saman þegar skyldusparnaður jókst, þvert á kenningar um neysludreifingu yfir tíma (e. intertemporal consumption smoothing). Niðurstöður spurningakönnunar sem gerð var sem hluti af þessari rannsókn benda til þess að á heildina litið sé þekking almennings á lífeyriskerfinu takmörkuð og að fáir hafi vitað að framlagið til skyldulífeyrissparnaðar hafi hækkað.


 

Rannsókn á samhengi menntunarstigs og neysluhneigðar frá vöggu til grafar (sjá nánar)

Höfundar: Svend Hougaard Jensen, Sigurður Páll Ólafsson, Þorsteinn Sigurður Sveinsson og Gylfi Zoega

Útdráttur: Í ritgerðinni eru notuð gögn úr skattskýrslum allra landsmanna árin 2005-2019 til þess að rannsaka hvernig tekjur og neysla þróast yfir ævi fólks með menntun á mismunandi námsstigi. Þetta tímabil nær yfir fjármálaáfallið 2008 en í kringum það voru talsverðar sveiflur í ráðstöfunartekjum. Einnig er rannsakað hvernig jaðarneysluhneigð (breyting í neyslu þegar tekjur breytast) fylgir menntunarstigi. Helstu niðurstöður eru þær að einstaklingar með háskólamenntun jafna neyslu (e. consumption smoothing) meira yfir ævina en aðrir. Þá er jaðarneysluhneigð að jafnaði lægri meðal þeirra sem hafa hærra menntunarstig, þ.e. neysla þeirra breytist minna en annarra við tekjubreytingar. Þeir sem hafa lokið námi á framhaldsskólastigi hafa lægri jaðarneysluhneigð en þeir sem hafa einungis lokið grunnskólaprófi og þeir háskólamenntuðu hafa að sama skapi lægstu jaðarneysluhneigðina. Niðurstöður ritgerðarinnar benda því til að hærra menntunarstig dempi hagsveiflur vegna þess að sveiflur framleiðslu og tekna hafa minni áhrif á einkaneyslu heimla..


Rannsókn á áhrifum fjármálahrunsins 2008 á sparnaðarhegðun Íslendinga

HöfundurSigurður Páll Ólafsson

Útdráttur:  Í rannsókninni eru skattagögn notuð til þess að meta áhrif fjármálaáfalssins 2008 á neyslu- og sparnaðarhegðun Íslendinga. Tímabilið sem er lagt til grundvallar í rannsókninni nær yfir efnahagslegu uppsveifluna á árunum fyrir fjármálakreppuna, fall bankanna og fjármálakreppuna  og árin eftir kreppuna.  Miklar sveiflur tekna og mikil óvissa um framtíðarþróun ráðstöfunartekna gefur tækifæri til þess að meta breytingar á sparnaðarhneigð Íslendinga, einkum varkárnissparnaði sem ætlað er að mæta óvæntum áföllum í framtíðinni. Metnar eru líkur á atvinnumissi fyrir hvern skattgreiðanda og síðan eru áhrif þessa þáttar á einkaneyslu metin. Niðurstöður benda til þess að auknar líkur á atvinnumissi dragi úr einkaneyslu til lengri tíma. Þessi áhrif eru sérstaklega sterk fyrir heimili með verðtryggð lán. Heimili sem voru skuldug í verðtryggðum lánum lækkuðu þannig einkaneyslu sína meira en hin sem höfðu minni skuldir.


 

Rannsókn á sparnaðarhegðun lífeyrisþegar á Íslandi

Höfundar: Torben M Andersen, Andri S Scheving og Gylfi Zoega

Útdráttur: Þessi rannsókn snýst um að mæla sparnað fólks sem er hætt þátttöku á vinnumarkaði. Niðurstöður sýna að einstaklingar halda áfram að spara þótt starfsævinni sé lokið. Þetta er áhugavert í alþjóðlegu samhengi vegna þess að á Íslandi þarf ekki að spara til þess að mæta væntanlegum kostnaði við heilbrigðisþjónustu og dvöl á hjúkrunarheimilum eins og reyndin er t.d. í Bandaríkjunum. Umfang sparnaðar fer eftir fjölda uppkominna barna, tekjum barna og sparnaði þeirra. Sparnaður lækkar mikið og verður neikvæður árin eftir fráfall maka sem bendir til þess að eftirlifandi foreldri greiði uppkomnum börnum út arf.


 

Rannsókn á því hvað ákvarðar snemmtöku lífeyris

Höfundar: Torben M Andersen, Andri S Scheving og Gylfi Zoega

Útdráttur: Á Íslandi er algengt að fólk á sjötugsaldri fari í hlutastarf eða hverfi af vinnumarkaði áður en lögbundnum eftirlaunaaldri er náð. Í rannsókn þessari er rannsakað hvaða þættir orsaka snemmtöku lífeyris. Horft er til hjónabandsstöðu, vinnumarkaðsþátttöku maka, launatekna, lífeyris, eignarhalds á húsnæði og skulda. Búist er við að niðurstöður liggi fyrir í lok sumars 2024.