Gylfi Zoega

Gylfi Zoega er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og í hlutastarfi við Birkbeck Business School í London. Gylfi lauk Cand Oecon prófi frá Háskóla Íslands árið 1987 og MA, MPhil og síðan PhD prófi frá Columbia University í New York árið 1993.  Áður en Gylfi hóf störf við Háskóla Íslands starfaði hann í London við hagfræðideild Birkbeck College. Gylfi var nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands frá  2009 til 2023. Rannsóknir hans fjalla einkum um sparnað, fjárfestingu, fjármálastöðugleika og hagvöxt. Árið 2023 kom út bók hans með Hian Teck Hoon og Edmund S. Phelps, The Great Economic Slowdown, sem lýsir orsökum og afleiðingum lækkandi framleiðnivaxtar á Vesturlöndum síðustu áratugi, og er framhald af skrifum sömu höfunda í bókinni Dynamism sem kom út hjá Harvard University Press árið 2020.  Gylfi hefur skrifað fjölda greina um fjármálakreppuna á Íslandi árið 2008. Hann er annar tveggja ritstjóra Preludes to the Icelandic Financial Crisis (2011), The 2008 Global Financial Crisis in Retrospect (2019) og Fault Lines After COVID19: Global Economic Challenges and Opportunities (2023) sem voru gefnar út af Palgrave Macmillan. Hann er félagi í CESifo við Háskólann í Munchen og einnig PeRCent við Copenhagen Business School.

 

Heimasíða