Guðrún Johnsen er ráðgjafi yfirstjórnar Danmarks Nationalbank og yfirumsjónarmaður bankans í málefnum AGS og BIS. Á námsferli sínum starfaði hún sem lektor í fjármálum hjá CBS, Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík 2006-2023. Á árunum 2013-2023 var hún rannsakandi við Lagadeild Háskólans í Ósló og frá 2023 hjá CBS PeRCent. Áður en Guðrún hóf störf í háskólasamfélaginu starfaði hún hjá peningamála- og markaðssviði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á árunum 2004-2006 við tæknilega aðstoð og rannsóknir m.a. á útlánaþenslu.
Í kjölfar fjármálakreppunnar miklu var Guðrún ráðin af Rannsóknarnefnd Alþingis sem yfirrannsakandi til að kanna orsakir og atburði sem leiddu til falls íslenska bankakerfisins árið 2008. Hún hefur víðtæka stjórnarreynslu í fjármálageiranum, hún átti m.a. sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna á Íslandi 2019-2023 og var varaformaður stjórnar Arion banka 2010-2017.
Guðrún er stofnfélagi og fyrrverandi stjórnarformaður Transparency International á Íslandi. Guðrún er með doktorsgráðu í hagfræði frá École Normale Supérieure í París, MA gráðu í tölfræði og MA gráðu í hagnýtri hagfræði frá University of Michigan, Ann Arbor, auk BA gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands. Fræðasvið hennar eru réttarhagfræði, stofnanahagfræði, fjármál fyrirtækja og atvinnuvegahagfræði. Núverandi rannsóknir hennar beinast að stjórnarháttum lífeyrissjóða, lögsóknum lífeyrissjóða, útlánaáhættu fyrirtækjasamstæða og kynbundinni áhættufælni í fjármálastjórnun fyrirtækja. Guðrún hefur skrifað mikið um hvatakerfi, útlánavöxt, bankabresti og fjármálastöðugleika. Hún er höfundur bókarinnar „Bringing Down the Banking System: Lessons from Iceland“ sem Palgrave-Macmillan gaf út árið 2014.